Á Hverfanda Hveli <$BlogRSDUrl$>

Á Hverfanda Hveli

Monday, April 10, 2006

Hard Rain's Gonna Fall...

Ohhh, ég elska Bob Dylan ;)

Ég er ekkert búin að skrifa hérna alveg heillengi, búin að vear frekar andlaus og búin á því undanfarið. Sumarbústaðarferðin var æðisleg. Það var ekkert smá yndislegt að komast burt úr daglega lífinu, fara á fallegan stað og vera í notalegu húsi og vakna við sólskin og fuglasöng á morgnana. Á Sunnudeginum var 14 stiga hiti á pallinum. Það var reyndar fimbulkuldi þegar við komum út á þjóðveginn, en það er svo mikið skjól á pallinum að það varð bara svona rosalega heitt og notalegt þegar sólin skein. Ekki amalegt það. Mér fannst eiginlega verst að þurfa að fara heim aftur.

Í bústaðnum bjó ég til alveg geggjaða chicken parmesan uppskrift. Ég skar kjúklingabringur í helminga þannig að þær yrðu ekki mjög þykkar (s.s langsum), muldi ristað brauð og kryddaði það með hvítlauk og oregano, velti bringunum upp úr þessu og steikti þær á pönnu. Síðan sauð ég marinera sósu úr tómötum í dós, elska þessar dósir - ein dós er einn grænmetisskammtur, einni dós af tómatmauki og kryddaði með oregano, basilíkum og hvítlauk. Síðan setti ég helminginn af sósunni í eldfast fat, lagði svo kjúklinginn þar ofan í og setti restina af sósunni yfir, setti síðan ost yfir réttinn og bakaði hann í ofni í svona 20 mínútur. Rosalega góður réttur og fljótlegur.

Á Laugardagskvöldið eldaði ég nauta piparsteik, bjó til ostasósu úr léttum smurosti, skar niður kartöflubáta og setti olíu, timian og hvítlauk á þá og setti þá í ofn. Það var önnur mjög góð máltíð þó ég hefði ekkert verið sérstaklega ánægð með sósuna en hún fór vel ofan í kærastann.

Ég var ekkert spes dugleg á kúrnum yfir helgina. Borðaði samt ekkert sem ég mátti ekki fá, og borðaði ekki of mikið af neinu en ég borðaði heldur ekki nóg. Of lítið vatn, of fáir ávextir og of lítið grænmeti. En ég var samt ágætlega sátt þar sem að ég var í fyrsta fríinu mínu upp í bústað í mörg mörg ár. Ég hreyfði mig líka meira en vanalega. Fór í gönguferðir og kleif meira að segja heilt fjall. Ég tók myndir til þess að sanna að þetta hafi í raun og veru átt sér stað. Set þær kannski inn hérna ef hinir vantrúðu fara eitthvað að krunka í kommentunum hjá mér. :)

En þessi vika hefur samt verið frekar upp og ofan DDV-lega séð. Ég er svona í meginatriðum búin að halda mig við reglurnar, en ég er samt ekki að drekka nóg vatn eða borða næga ávexti og ég hef ekki borðað fisk í vikunni. Ég var veik heima og það er ekki Nóatún í Keflavík þannig að ég komst ekki yfir ætan fisk. Ég fór í Samkaup, en þar var enginn gáfulegur fiskur til og ekki heldur gáfulegur starfsmaður - manneskjan vissi ekkert hvað var í borðinu, þaðan af síður með hverju það var kryddað. "Jaaá, æi þetta eru bara svona jurtir, sko...". Eins og allar jurtir séu bara eins á bragðið :)

Ég mæli annars með DDV sandkökunni, finnst hún rosalega góð. Hita hana smástund í örbylgjuofni með ananas ofan á og kannski smá kanel, borða hana síðan með vanilluís. Reyndar líður mér alltaf eins og búrhval eftir þessa eftirrétti. Þetta er meiri ólifnaður en ég hef nokkru sinni leyft mér, og það daglega... en kústskaftið er duglegt að segja mér að ég sé að grennast og hann bæði sjái það og finni. Ég reyndar sjálf sé hvorki neitt né finn, en buxurnar mínar eru held ég að verða aðeins rýmri. Get til "gamans" sagt frá því að ég datt úr buxunum þegar ég var að hlaupa niður stigann í gærkvöldi. :O

Skrýtið samt hvað maður er ruglaður hvað viðkemur mat. Það er allt búið að ganga á afturfótunum hjá mér undanfarið, lífið mitt er farið að líkjast grískum harmleik á köflum. Og ofan á allt saman þarf ég að vera að slást við þessa rödd í hausnum á mér sem er alltaf að stinga því að mér að segja bara til fjandans með allt og borða bara það sem mig langar í. Þó svo að mig langi ekkert sérstaklega í skyndibitamat og nammi, þá er ég að einhverju leyti að reyna að ýta sjálfri mér út í það. Eins og allt þetta slæma sé á einhvern hátt mér að kenna og ég eigi bara að gefast upp fyrir því, að það þýði ekkert að vera að reyna að vera í megrun þegar allt sé svona ömurlegt hvort sem er. Ég þarf alveg hreinlega að horfa í spegil og segja sjálfri mér að sama hvað ég borða, þá lagi það ekki neitt. Og ég veit það mjög vel og hef ekkert borðað neitt óhollt, en mér finnst svo skrýtið hvað ég er að reyna að skemma fyrir sjálfri mér. Ég get líka eiginlega ekki greint hvort ég er að reyna að hugga mig með mat, eða refsa sjálfri mér fyrir hvað allt hefur verið ömurlegt. Að ég sé bara að reyna að gera illt verra, gefast upp fyrir öllu saman.

Móðir mín er búin að gera sig að megrunarforseta hjá mér. Ekki svo að skilja að hún hafi haft fyrir því að kynna sér hvað ég má borða, en hverjum er ekki sama um svoleiðis smáatriði. Ef hún sér mig með eitthvað, eins og þegar ég set majónes í einhvern mat - því eins og allir góðir danir vita má ég fá 6 tsk. af mæjó á dag - gapir hún alveg og segir síðan með miklum yfirlætissvip "þetta máttu ekki fá". Fer síðan í fýlu ef ég borða það samt vegna þess að jú, ég má bara víst fá þetta. Ég má ekki fá pulsur (einu sinni í viku), ekki fá mæjónes, ekki fá kartöflur, ekki fá pasta, ekki fá sultu... the list goes on. Ætli þeir hjá Danska hafi nokkra hugmynd um þetta?! Þetta fer svo svakalega í taugarnar á mér, sérstaklega þessa dagana þegar ég þarf að taka á öllu sem ég á til þess að fá mig til þess að vigta ofan í mig og snúast í þessu öllu saman, að ég gæti gargað. Ég líka þoli ekki þessa ævilöngu áráttu hennar yfir hvað ég borða. Móðir mín er nota bene ekki í kjörþyngd og hefur aldrei verið svo lengi sem ég man eftir mér. Samt lifir hún og hrærist í áráttu um líkamsþyngd. Þegar ég var lítil, í stað þess að taka sig sjálf á og grenna sig og setja gott fordæmi, þá var ég alveg hreint húðskömmuð ef ég borðaði það sem ég "mátti ekki" borða. Mér var sagt, fyrir framan vinkonur mínar, að ég hefði nú ekki efni á að borða það sem þær voru að borða. Ég gæti ekki klætt mig eins og þær klæddu sig. Og ég mátti ekki fá þetta og mátti ekki fá hitt. Í sumarbústaðarferðum mátti frænka mín sem er á svipuðum aldri og ég borða kókópöffs þangað til leið yfir hana en ég mátti fá eina skál sem skammtað var í. Mér fannst þetta svo niðurlægjandi og ég var svo reið, að ég sór þess dýran eið að enginn skyldi stjórna því hvað ég léti ofan í mig og ég myndi borða allan slæman mat sem ég næði í og enginn gæti ráðið því nema ég. Í hvert skipti sem ég var niðurlægð fyrir framan aðra forhertist ég ennþá meira. Í hvert skipti sem móðir mín tók æðiskast af því að ég var ekki að drekka diet kók heldur venjulegt kók, þá fór ég og keypti tvær venjulegar kók og drakk þær í herberginu mínu. Hljóðlát uppreisn, sem bitnaði náttúrulega aldrei á neinum nema mér. Story of my life :) Enn þann dag í dag, þegar ég fæ þessi megrunarforseta komment frá henni, þá snertir það einhvern uppreisnarstreng í brjósti mér sem segir mér að fyrst hún segir að ég megi ekki fá majónes, þá skal ég panta mér pítsu og hamborgara og skola þessu öllu saman niður með sykurgosi og borða síðan nammifjall í eftirrétt. Enn sem komið er skelli ég skollaeyrum við þessum kommentum frá henni, segi henni að skipta sér ekki af þessu.

Æi ég veit ekki af hverju ég er að velta mér upp úr þessu, ég bara hugsa svo mikið um þetta allt saman. Alltaf í naflaskoðun :) Það er bara kannski auðveldara að díla við tilfinningar og viðbrögð þegar maður getur skilgreint þau og skilið hvað er að gerast.

Ég er líka kannski bara obsessed af sjálfri mér. Who knows :)


(1) comments

Archives