Á Hverfanda Hveli <$BlogRSDUrl$>

Á Hverfanda Hveli

Tuesday, March 14, 2006

Fyrsti dagurinn

Eftir langa mæðu ákvað ég loks að byrja á danska kúrnum. Ég er búin að vera "á leiðinni" að byrja í marga, marga mánuði. Ég var að bíða eftir því að fundirnir yrðu á tíma sem hentaði mér, bíða eftir að eignast vigt (veit ekki hvernig ég hafði hugsað mér að eignast hana án þess að kaupa hana, en jæja), bíða eftir því að ég missti nokkur kíló, bíða eftir afmæli kærasta míns, bíða og bíða eftir engu nema sjálfri mér í raun og veru. Samt hafði ég hugsað mér að byrja strax eftir jól, núna er allt í einu kominn miður Mars og ég var ekki enn byrjuð. Og enn eru fundirnir ekki á réttum tíma og ég á eftir að fjárfesta í vigt (geri það síðdegis, það var lokað í Elko í gær þegar ég var búin að vinna). En ég ákvað, hingað og ekki lengra. Ég er búin að fá ógeð af því að vera sífellt að gera áætlanir. Ég tálga mig daglega í huganum niður í Ungfrú Eþíópíu, hugsa mikið og lengi um hvað ég ætla alveg rosalega mikið í megrun og hvað ég ætla rosalega að grenna mig og verða rosalega flott... og ég hugsa og hugsa um þetta, kaupi mér íþróttaföt til að fara í ræktina, kaupi kannski ávexti af og til til þess að sannfæra mig um að ég sé að gera eitthvað í mínum málum... en geri síðan aldrei neitt. Ég er búin að vera í "átaki" núna í huganum lungann af hálfu ári. Ég er búin að missa um 7 kíló á öllum þessum tíma, þar af fóru reyndar fyrstu sex á fyrstu tveim mánuðunum. Síðan hef ég bara staðið í stað, borðað skyndibita í hádegismat og talið sjálfri mér trú um að ég sé í átaki vegna þess að ég borði bara nammi um helgar.

Það er í rauninni rosalega skrýtið að vera feitur. Þetta er ástand sem veldur manni líkamlegum óþægindum, hindrar mann í að gera það sem mann langar til, eyðileggur sjálfstraustið og maður þráir ekkert heitar en að grenna sig... en nær einhvernvegin aldrei tökum á sjálfum sér til þess að gera neitt í málunum. Ég hef af og til hrokkið í gírinn og náð af mér kannski 10 kílóum. Á þessum tíma á ég rosalega auðvelt með að borða rétt. Langar ekkert í nammi, finnst bara fínt að borða mjög litla skammta af mat og er fullkomlega sátt við guð og menn. Síðan fer eitthvað úrskeðis. Ég get hérumbil stillt klukkuna eftir því. Eftir u.þ.b þrjá mánuði fer ég í bíó, eða er bara með vídjókvöld heima með stelpunum... og ég fæ mér nammi. Og ég sver það, stundum hugsa ég að ég sé bara eins og fyrrverandi fíkillinn sem er edrú í einhvern tíma, hefur snúið baki við fíkninni og þráir ekkert meira en að standa sig, en ofmetur eigið ónæmi fyrir gömlum draugum og rankar við sér með sprautuna í handleggnum. Ok, kannski smá dramatík... :) Málið er nefnilega, að ég á ekki í neinum vandræðum með að stoppa mig frá því að borða nammi. Ég get átt stóran poka af M&Ms heima hjá mér, óopnaðan, og auðveldlega staðist þá freistingu að opna hann langtímunum saman. Hugsa ekki einu sinni um hann. En ef ég opna hann... þá borða ég hann allan, þangað til mér verður illt og óglatt. Síðan næst þegar ég lít í spegil, sé hvernig ég lít út... þá skamma ég mig ógurlega í huganum fyrir græðgina. Hugsa síðan að ég byrji í megrun á Mánudag, og útlista allt í huganum sem ég verð að ná að borða fyrir þann tíma. Áður en MEGRUNIN KEMUR.

Jæja...

Ég er allavega orðin 23 ára gömul og hef verið hreinlega feit alla mína tíð. Ég var að horfa á Dr. Phil um daginn og hann var að tala um eitthvað megrunarprógram, og sagði svolítið sem ég hef oft hugsað um áður. Ég get ekki stjórnað því að tíminn líði. Hann mun líða. Næsta ár mun líða, eins og öll árin á undan þar sem ég var alveg að fara í megrun hvern Mánudag, og ég mun (god willing) enn vera hérna eftir árið. Ég er búin að ákveða það að næsta árið mun líða hvort sem ég ligg grafin í sælgæti og majones, eða ég geri eitthvað í mínum málum. Eftir eitt ár ætla ég að vera orðin grennri en ég er í dag. Ég ætla mér að komast í kjörþyngd á árinu. Ég er búin að skipta ferlinu í fimm þrep sem eru 5 kíló hvert. Ég er að reyna að finna mér verðlaun til þess að gefa sjálfri mér í lok hvers þreps. Það er bara svo erfitt með mig að ég er forfallinn nautnaseggur. Ég leyfi mér allt. ALLT. Mér er sama um holdafar, peninga, jú neim it ef mér langar í eitthvað. Ef mér líst á það, þá eignaðist ég það fyrir 10 mínútum. Hm, gæti verið að mitt vandamál væri impulse control? ;) En ég er að reyna að sjá fyrir mér hvað mig langar í og ætla að banna mér að fá það fyrr en ég lýk tilheyrandi þrepi, guð hjálpi mér.

Ég er í dag 168 cm á hæð, og 87 kíló.

1. þrep: -5 kíló = 82 kíló
2. þrep: -5 kíló = 77 kíló
3. þrep: -5 kíló = 72 kíló
4. þrep: -5 kíló = 67 kíló
5. þrep: -5 kíló = 62 kíló

Ég er nú reyndar enn að gerast sek um gamla glæpinn, að sjá í einhverjum hyllingum hversu hratt þetta mun gerast. En ég er að reyna að halda í raunsæið, ég mun stíga einhver hliðarspor á árinu... en svo lengi sem þau verða 3 en ekki 365, þá má ég vera ánægð með það. Ég held bara áfram, no matter what, og þá gerist þetta.


Comments: Post a Comment

Archives